Viðey

Viðey, er stærsta eyjan á Kollafirði. Milli hennar og lands er Viðeyjarsund. Reglubundnar ferjusiglingar eru milli Skarfabakka og Viðeyjar. Eyjan er rétt tæpir 3 km á lengd og um 800 m þar sem hún er breiðust, eða rúmlega 1,5 km2.Viðeyjarstofa og -kirkja hafa verið endurbyggðar og einnig Viðeyjarskóli. Fræðsluskilti eru við bryggjuendann, að baki Viðeyjarstofu, við Viðeyjarskóla og við grunna húsanna sem stóðu í þorpinu. Viðeyjarskóli er á eynni austanverðri. Skólahald var frá 1912 til 1941 en þar voru mest 40 nemendur.

Í Viðeyjarskóla er skemmtileg og fróðleg sýning um sögu Milljónafélagsins, Kárafélagsins og veitt innsýn í líf þorpsbúa í Viðey. Gönguferðir eru skipulagðar um eyna yfir sumartímann og einnig eru hugvekjur og pistlar á sunnudögum. Í eynni eru merktar gönguleiðir, leiktæki fyrir börn og útigrill fyrir gesti. Í Viðeyjarstofu fást keyptar veitingar. Á Vesturey er skemmtileg gönguleið þar sem hægt ar skoða listaverkið Áfanga eftir Richard Serra. Þann 9.október 2007 var í fyrsta sinn kveikt á listaverki Yoko Ono, Imagine Peace Tower. Verkið tileinkar hún minningu eiginmanns síns, John Lennon. Ár hvert verður ljóssúlan í listaverkinu tendruð á fæðingardegi John Lennon og mun lýsa til 8.desember, sem er dánadægur hans.