Berufjörður, langur og allbreiður, margir hólmar og sker. Undirlendi er lítið á suðurströndinni, en nokkurt með firðinum að norðan. Heitir þar Berufjarðarströnd.
Fjöll há og sérkennileg. Mestur Búlandstindur sunnan fjarðarins, sagður hæsta fjall á Íslandi sem liggur að sjó, 1069 m.
Með innanverðum firðinum að norðan margir sérkennilegir tindar og gnípur. Líparít víða.
Berufjörður, er kirkjustaður og var prestssetur til 1906. Þar er Nönnusafn, bóka– og minjasafn Nönnu Guðmundsdóttur sem bjó lengst af á bænum.
Í Tyrkjaráninu árið 1627 hjuggu alsírsku sjóræningjarnir strandhögg á Austfjörðum, þ.á m. á kirkjustaðnum Berufirði. Brenndu þeir bæinn, spilltu kvikum peningum og dauðum hvar sem þeir máttu og hjuggu og söxuðu fé og færleika, eins og Jón Espólín komst að orði.
Upp af Berufirði bera við himin einhverjir sérkennilegustu fjallatindar á Íslandi (taldir frá austri til norðurs): Stöng, Röndólfur, Slöttur, Smátindar og Flögutindur. Þeir eru úr dökku líparíti sem kom úr Breiðdalseldstöðinni.