Dimmifjallgarður, gengur suður af Haugsöræfum og suður undir Þjóðfell. Fjöll þar eru flest 600–900 m há. Um hann lá leið milli Hólsfjallabæja og Vopnafjarðar en villugjarnt var þar á vetrum og oft urðu þar slys. M.a. fórust þar tveir menn í febrúarmánuði 1874. Höfðu þeir hest og æki meðferðis en lentu í hríðarveðri og urðu úti. Fundust lík þeirra eftir hálfan mánuð og stóð hesturinn yfir þeim. Gat hann ekki hreyft sig því taumurinn var frosinn niður.