Núpsvötn, vatnsmikil jökulá vestast á Skeiðarársandi og kemur jökuláin Súla saman við þau. Í Súlu koma hlaup úr Grænalóni. Áður flæmdust árnar víða um sandinn en við vegar– og brúagerð á honum var þeim veitt saman undir eina brú, 420 m langa. Oft er vel búnum torfærubílum fært inn að Eystrafjalli, í Núpsstaðarskóga, en vegna óvissu um leiðir og vatnsföll er sjálfsagt að kunnáttumenn séu með í för. Innst inni í Núpsvatnadal falla Núpsá og Hvítá saman í fögrum fossum, Núpsárfossi og Hvítárfossi, niður í þröngt gljúfur og heita þá Núpsvötn. Fært er gangandi fólki upp með gljúfrinu að austan og er járnkeðja fest í bergið til hjálpar. Allmiklar skógartorfur eru meðfram ánni, og fagrir hamraveggir að baki. Frá tjaldstæðum við Eystrafjall eru ágætar gönguleiðir upp á fjallið og þaðan austur á Súlutinda og inn að Grænalóni.