Gjátindur

Eldgjá, um 40 km löng eldsprunga á Skaftártunguafrétti. Við norðurenda hennar er svipfríður tindur, Gjátindur, en að sunnan gengur hún upp undir Mýrdalsjökul. Stórbrotnastur er norðurhluti hennar, frá veginum og norður að Gjátindi. Þar er hún víða um 600 m breið og 200 m djúp. Geysimikil hraun hafa runnið frá Eldgjá, niður Skaftárgljúfur og suðaustur um Meðalland og Landbrot, vestur um Hólmsárgljúfur og allt suður í Álftaver. Þorvaldur Thoroddsen skoðaði Eldgjá fyrstur vísindamanna og gaf henni nafn. Talið er að gosið hafi í Eldgjá á 10. öld og ætla margir að hraun hafi runnið þaðan niður í Meðalland, en úr suðurhluta gossprungunnar, sem nú er undir Mýrdalsjökli, er talið að hraun hafi runnið niður undir Álftaver. Hraunið undir Álftaveri sjálfu er eldra.