Gunnarsholt, fyrrum stórbýli og kirkjustaður. Sandfok og uppblástur herjaði á jörðina og var bærinn fluttur hvað eftir annað uns jörðin fór í eyði 1925 og var þá aleydd að kalla. En úr því var hafist handa um heftingu sandfoks og uppgræðslu og frá því 1928 hefur Gunnarsholt verið höfuðstöðvar Landgræðslu ríkisins, sem fyrstu áratugina hét Sandgræðsla Íslands.
Sagnagarður, fræðslu– og kynningarsetur Landgræðslu ríkisins er opin daglega yfir sumarmánuðina.
Í Gunnarsholti er rekin Fræverkunarstöð og ræktað fræ af landgræðslujurtum í samstarfi við Rannsóknarstofnun landbúnaðarins.
Árið 1999 afhjúpaði Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra minnisvarða í Gunnarsholti um kirkju, sem reist var þar um 1200 en hún fór undir sand 1837 og var þá lögð niður.