Hergilsey

Hergilsey, 5–6 sjómílur í norður frá Flatey, mest Vestureyja. Henni tilheyra um 30 eyjar og er jarðhiti í sumum þeirra. Í Hergilsey byggði Hergils hnapprass Þrándarson. Sonur hans, Ingjaldur, dugði Gísla Súrssyni manna best er sóst var eftir lífi hans. Árið 1910 rændi enskur togaraskipstjóri bóndanum í Hergilsey, Snæbirni Kristjánssyni (1854–1938) hreppstjóra og merkum sjósóknara, ásamt sýslumanni Barðstrendinga. Guðmundi Björnssyni (1873–1953) og flutti til Englands er þeir voru að gegna skyldustörfum sínum og hugðust taka hann höndum fyrir veiðar í landhelgi.