Hólar

Hólar, mestur sögustaður Norð­ur­lands og segja Skag­firð­ingar enn „heim að Hól­­um“. Biskups­setur 1106–1798, latínuskóli frá siða­skipt­um til 1802, prent­­smiðja um nær sama tíma. Var þá höfuð­stað­ur Norð­ur­lands. Margir merk­is­menn hafa set­ið þar á bisk­ups­­stóli, svo sem Jón Ög­munds­son (1052?–1121) 1106–21, Jón Ara­son (1484–1550) 1524–50 og Guð­brand­ur Þor­­láks­son (1541–1627) 1571–1627. Guð­brandur var listfengur, skar út og smíð­aði, en mest­ur var orðstír hans fyrir bókagerð og þýðingar. Mesta stór­­virki hans er biblía sú sem við hann er kennd, Guð­brands­biblía, sem tal­in er hafa haft af­ger­andi áhrif á varðveislu íslenskrar tungu. Dóm­kirkj­an úr sand­­steini úr Hóla­­byrðu. Vígð 1763 og endurvígð 1988 eftir gagn­­gera við­gerð. Elsta stein­­kirkja lands­­ins. Séra Bene­dikt Vigfússon reisti árið 1860 torf­bæ, Nýjabæ, ofar­lega í tún­inu. Frið­lýstur og hluti af húsasafni Þjóðminjasafns Íslands síðan 1956 er hann var tekinn á fornleifaskrá. Auð­unar­stofa, sem stóð á Hólum á 14.­–18. öld, hefur verið endurreist í trjá­lundi, stokka– og stafa­hús með torfþaki. Á Hól­um hafa sögu­­minj­ar verið merkt­­ar. Forn­leifarannsóknir hafa farið fram á biskupsstólnum Hólum en einnig við Kolkuós, fyrrum höfn Hólabiskupa og landnámshöfn. Tal­ið er að Elín­ar­hólmi, sem er úti fyrir landi, hafi jafnvel verið land­fast­ur og þannig myndað góða hafnaraðstöðu. Meðal þess sem fundist hefur þarna er talið hafa verið smiðja þar sem járnframleiðsla fór fram. Þar er grunn– og bænda­­skóli. Hóla­hátíð hefur verið haldin frá 1950. Á sumrin er einnig boð­ið uppá „Drauga­rölt“ og „Náttúrurölt“ öðru hverju.