Lakagígar

Lakagígar eða Eldborgaraðir, skera Laka norðanverðan. Gígaröðin er nærri 40 km löng, frá Skaftá og upp í Vatnajökull, með meira en eitt hundrað gíga; sumir eru allt að 100 m á hæð. Gígarnir eru nú flestir mosavaxnir en sandfok frá Skaftá er farið að herja á þá. Gos hófst þar 8. júní 1783 og gaus mest í vesturgjánni (vestan Laka) í júní og júlí, en frá júlílokum til hausts í austurgjánni. Í gosinu kom upp Skaftáreldahraun (Eldhraun), sem þekur stór svæði niðri í byggð. Áður hafði gosið á sömu slóðum.