Njarðvík, nyrsta vík Austfjarða og upp frá henni fallegur dalur víða með skógarkjarri. Bær samnefndur kemur víða við fornsögur Austfirðinga. Þar er fornt mannvirki, Þorragarður, hlaðinn torfgarður, talinn frá söguöld, einnig nokkrar dysjar. Garðurinn var í upphafi um 1,4 km að lengd en í dag standa eftir um 0,9 km af honum, allt að 1,5 m á hæð. Þiðrandaþúfa er í túni á bænum Borg þar sem sagt er að Þiðrandi Geitisson væri veginn en Gunnarssker tvö úti á víkinni kennd við Gunnar Þiðrandabana. Þorragarður og Þiðrandaþúfa eru friðlýstar fornminjar. Í Njarðvík var áður kirkja en í henni fermdist m.s. Jóhannes S. Kjarval, listmálari (1885–1972).