Ólafsfjörður

Ólafsfjörður, er annar tveggja byggðakjarna Fjallabyggðar. Ólafs­fjörður er fallegur fjörður, umvafinn háum fjöllum. Fjöllin, ásamt Ólafsfjarðarvatni og Ósnum, mynda mjög fallegt bæjarstæði. Sjávarútvegur og smáiðnaðaður eru aðal atvinnuvegirnir.

Fyrir ferðamenn og útivistarfólk er margt skemmtilegt að skoða og gera í Ólafsfirði. Á veturna er staðurinn skíðaparadís og draumur útivistarmannsins. Hægt er að fara á svigskíði, gönguskíði, skauta, dorga á vatninu og þeytast um á snjósleða.

Á sumrin eru það fjöllin, vatnið, Ósinn og svört sandfjaran sem heilla. Við Ólafsfjörð má finna fjölbreyttar gönguleiðir um fjöll og dali og njóta einstaks útsýnis í kyrrð ró. Fyrir ofan Múlagöng liggur gamli Múlavegurinn sem var einn hrikalegasti fjallvegur landsins í 300 metra hæð yfir sjávarmáli. Útsýni þaðan er einstakt og hvergi betra að njóta miðnætursólarinnar á Íslandi. Vegurinn að hrunin að hluta og því ekki hægt að komast fótgangandi yfir Múlann með góðu móti.

Í Ólafsfirði er einnig eini skíðastökkpallur á Íslandi. Einnig er í Ólafsfirði glæsilegt Náttúrugripasafn sem hefur til sýnis eitt fjölbreyttasta fuglasafn landsins.

Við kirkjuna er minnis­varði um drukknaða sjómenn, reistur um 1940, sá fyrsti sinnar tegundar á landinu.