Öræfi, vestasta sveit Sveitarfélagsins Hornafjarðar og um leið Austur–Skaftafellssýslu, liggur milli Skeiðarár og Breiðamerkursands meðfram vestur– og suðurhlíðum Öræfajökuls. Framundan opið haf með hafnlausri strönd, Vatnajökull að baki, sandar með illfærum jökulvötnum til beggja handa. Náttúrufegurð og fjölbreytni mikil. Alls eru þar 43 km milli Skaftafells og Kvískerja. Mýs, rottur og kettir þekktust ekki í Öræfum fyrr en eftir 1962.