Öskjuop

Askja, sigdæld í Dyngjufjöllum, um 50 km2. Botninn er þakinn úfnum apalhraunum. Í suðausturhorninu er ketilsig, um 11 km2. Í því er vatn, 217 m djúpt þar sem dýpst er. Jarðfall þetta varð til 1875 en þá varð stórfellt sprengigos í Öskju úr gíg sem heitir Víti við norðurbarm vatnsins. Er það talið mesta öskugos á landinu síðan sögur hófust. Öskuna lagði yfir Austurland milli Smjörvatnsheiðar og Berufjarðarskarðs. Mörg önnur gos hafa orðið í Öskju. Kunnast er gosið haustið 1961. Rann þá hraun út um Öskjuop. Árið 1907 drukknuðu Þjóðverjarnir Walther von Knebel jarðfræðingur og Max Rudloff málari í Öskjuvatni. Um Öskju og Dyngjufjöll hefur margt verið ritað.