Svefneyjar, 52 að tölu, 2–3 sjómílur austur af Flatey. Þar var höfuðból til skamms tíma, en nú í eyði. Í Svefneyjum fæddist Eggert Ólafsson (1726–1768), náttúrufræðingur, menningarfrömuður og skáld, einn merkasti Íslendingur 18. aldar. Kunnast rita hans er Ferðabók sú er hann skrifaði ásamt Bjarna Pálssyni (1719–1779), síðar landlækni eftir ferðalög þeirra og rannsóknir á Íslandi á árunum 1752–1757. Bókin var fyrst gefin út í Kaupmannahöfn 1772 og seinna þýdd á þýsku, frönsku og ensku. Hún var eitt merkasta vísindarit sem samið hefur verið og birt á erlendri tungu um Ísland og Íslendinga. Eggert drukknaði á Breiðafirði.