Þúfnavellir, þaðan var Barði Guðmundsson (1900–58) þjóðskjalavörður og þar bjó bróðir hans, Eiður Guðmundsson, (1888–1984) en hann skrifaði m.a. Búskaparsögu Skriðuhrepps hins forna. Upp frá Þúfnavöllum gengur Barkárdalur, um 14 km langur afdalur vestur úr Hörgárdal. Í dalnum er Baugasel, gamall endurbyggður bær í umsjá Ferðafélagsins Hörgs. Í botni dalsins er Barkárjökull, rúmir 7 km2. Undan honum kemur Barká sem ætíð er jökullituð og fær Hörgá nokkurn jökullit af henni. Framan við jökulinn er gróðurmikil, samvafin alda, Húðarhólar, um 475 m y.s. Úr Barkárdal liggja þrjár fjallaleiðir yfir í Hjaltadal: Tungnahryggsleið, Hólamannavegur og Héðinsskörð.