Húsavík, er kaupstaður við Skjálfandaflóa. Íbúar voru 2.232 1. jan. 2012. Bærinn fékk kaupstaðarréttindi árið 1950. Aðalatvinnuvegir eru sjávarútvegur, ferðaþjónusta auk verslunar og þjónustu. Jarðhiti er mikill í nágrenni Húsavíkur og ýmsir framtíðarmöguleikar, atvinnulega séð, tengdir því. Hitaveita hefur verið starfrækt á Húsavík síðan 1973, en hún nýtir hveravatn frá Hveravöllum í Reykjahverfi. Mikil og ört vaxandi þjónusta er við ferðamenn sem koma aðallega í tengslum við hvalaskoðunarferðir á Skjálfandaflóa en Húsavík er þekkt sem miðstöð hvalaskoðunarferða bæði hérlendis og erlendis. Mjög athyglisvert hvalasafn er á hafnarsvæðinu sem fært hefur fjölda ferðamanna til staðarins. Í Safnahúsinu sem er staðsett um 300 m frá höfninni er sýning um sambúð manns og náttúru, sjóminjasýning, listsýningar, ljósmyndasýningar, skjalasafn og bókasafn. Meðal almennra þjónustustofnana sem reknar eru í bænum má nefna sjúkrahús, heilsugæslu, leikskóla grunnskóla, framhaldsskóla, sundlaug og íþróttahús. Fyrsta kaupfélag landsins Kaupfélag Þingeyinga stofnað 1882 hafði aðsetur á Húsavík. Skammt fyrir ofan bæinn er Botnsvatn, þangað sækir fólk til að njóta útivistar, en góð gönguleið liggur hringinn í kringum vatnið. Húsavíkurfjall er 417 metra hátt. Þangað liggur akvegur og á toppnum er einstakt útsýni til allra átta. Þar er hringsjá. Nafn kaupstaðarins er tilkomið vegna þess að sögur herma að landnámsmaðurinn Garðar Svavarsson hafi haft hér vetursetu og fyrstur norrænna manna reist sér hús hér á landi.