Botnsvatn

Húsavík, er kaupstaður við Skjálfandaflóa. Íbúar voru 2.232 1. jan. 2012. Bærinn fékk kaupstaðarréttindi árið 1950. Aðalatvinnuvegir eru sjávarútvegur, ferðaþjónusta auk verslunar og þjónustu. Jarðhiti er mikill í nágrenni Húsavíkur og ýmsir framtíðarmöguleikar, atvinnulega séð, tengdir því. Hitaveita hef­ur ver­ið starfrækt á Húsavík síðan 1973, en hún nýtir hveravatn frá Hvera­völl­um í Reykjahverfi. Mikil og ört vaxandi þjónusta er við ferða­menn sem koma aðallega í tengslum við hvala­skoðunarferðir á Skjálf­anda­flóa en Húsa­vík er þekkt sem miðstöð hvala­skoðunarferða bæði hér­lendis og er­lendis. Mjög athyglisvert hvala­safn er á hafnarsvæðinu sem fært hefur fjölda ferðamanna til staðarins. Í Safnahúsinu sem er staðsett um 300 m frá höfninni er sýning um sambúð manns og náttúru, sjóminjasýning, listsýningar, ljósmyndasýningar, skjalasafn og bókasafn. Meðal almennra þjón­ustustofnana sem reknar eru í bænum má nefna sjúkrahús, heilsu­gæslu, leik­skóla grunnskóla, framhaldsskóla, sund­laug og íþróttahús. Fyrsta kaup­félag landsins Kaupfélag Þingeyinga stofn­að 1882 hafði aðsetur á Húsavík. Skammt fyrir ofan bæinn er Botnsvatn, þangað sæk­ir fólk til að njóta útivistar, en góð gönguleið liggur hringinn í kring­um vatnið. Húsa­víkur­fjall er 417 metra hátt. Þangað liggur akvegur og á toppnum er einstakt útsýni til allra átta. Þar er hringsjá. Nafn kaup­staðarins er til­kom­ið vegna þess að sög­ur herma að land­náms­maður­inn Garðar Svavars­son hafi haft hér vetur­setu og fyrstur norrænna manna reist sér hús hér á landi.