Goðanes

Goðanes, við Jökulsá fyrir utan Teigará. Þar á að hafa staðið hof Þórs í heiðni og sjást nokkrar rústir í nesinu. Norðan eða vestan við rústirnar er kelda sem fellur úr mýrarbotni. Heitir hún Blótkelda eða Blóðkelda. Sagt er að þar hafi innyfli blótdýra verið þvegin og jafnvel að þar hafi mönnum verið fórnað. Rauðaleirbragð er af vatninu í keldunni og trúðu menn áður að það væri blóðbragð. Við nesið er Jökulsá nokkuð breið og heitir þar Goðavað.